- Nám og Námskeið
- Alþjóðlega vottað Markþjálfanám
- Þjálfun og námskeið fyrir fyrirtæki
- Greiningar og Upplýsingar
- Þetta erum við
- Vefverslun
Karfan er tóm
Það er staðreynd að þeir sem setja sér markmið eru og verða ekki hamingjusamari en þeir sem gera það ekki. Ástæðan er einföld. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem setja sér markmið eru drifnir áfram af „FRÁ-hugsun“ í stað „TIL-hugsunar“. Markmið sem sett eru með „FRÁ-hugsun“ að leiðarljósi eru oftar en ekki sett fram í formi einhverskonar refsingar fyrir að vera á þeim stað eða í þeim sporum sem hann er í.
Dæmi um þetta er einstaklingur í yfirvigt sem er til í að gera hvað sem er til að komast „FRÁ“ þeim aðstæðum sem hann er í. Ósætti við núverandi ástand, vanlíðan og neikvæðni einkenna þann drifkraft sem heldur honum við markmiðið. Það verður til þess að um leið og viðkomandi fer að upplifa árangur, dregur það jafnframt úr kraftinum sem kom honum af stað í upphafi.
Það er því einungis tímaspursmál hvenær viðkomandi verður sáttur við hvert hann er kominn, hvenær sársaukinn hættir, algerlega burtséð frá því hvort hann sé búinn að ná því markmiði sem lagt var upp með í upphafi. Sögulokin þekkja flestir - það er yfirleitt bara tímaspursmál hvenær viðkomandi finnur sig aftur á byrjunarreit - eða jafnvel í verri sporum en áður.
Önnur algeng ástæða fyrir því að markmið stuðla ekki að aukinni hamingju og vellíðan er þegar fólk setur sér markmið sem drifin eru áfram af hégóma eða ríkri þörf fyrir viðurkenningu eða aðdáun annarra. Þau markmið eru oftar en ekki lituð af meðvirkni í einhverju formi eða minnimáttarkennd sem einnig er hægt að flokka sem „FRÁ-hugsun“.
Hugmyndafræði markþjálfunar gengur út á að skoða möguleika og lausnir. Hún gengur út á að draga línu í sandinn og sætta sig við að fortíðin tilheyri sjálfri sér. Framtíðin er leikvöllur draumanna, óskrifað blað, full af tækifærum og möguleikum. Markþjálfun gengur frekar út á að skoða hvað fólk vil og þráir í stað þess að velta sér upp úr því sem það vill ekki og virkar ekki. Allir sem vilja eitthvað annað, meira eða betra en það sem þeir hafa þurfa að horfast í augu við og viðurkenna fyrir sjálfum sér að meira af því sama er ekki líklegt til árangurs.
Góður markþjálfi á að aðstoða þig við að sjá hlutina í öðru eða nýju ljósi. Hann er alltaf með þér í liði og hefur enga skoðun á því hvaðan þú kemur. Hann er bæði styðjandi og áskorandi á sama tíma og hikar ekki við að spyrja krefjandi þig spurninga í þeim tilgangi að þú finnir svör, leiðir og möguleika sem þú hefur mögulega ekki leitt hugann að áður.
Markþjálfi hefur fengið þjálfun í að hlusta eftir því ósagða og ber að benda þér á þegar ósamræmi er á milli orða þinna, gjörða og ásetnings. Hann hjálpar þér að leita eftir þínum innri hvötum og hinum raunverulegu ástæðum fyrir því sem þú vilt. Samhliða því er hann þér innan handar við að skoða hvað mögulega stendur í veginum, hvað þú hefur nú þegar og hvað þig mögulega vantar til að yfirstíga bæði huglægar og veraldlegar hindranir.
Lykilinn af eigin árangri og lífshamingju hefur þú alltaf í hjarta þínu. Markþjálfinn getur hjálpað þér að snúa honum og opna dyrnar að nýjum og spennandi veruleika með því að halda þér við efnið af alúðarfestu og brúa þannig bilið milli efnda og ásetnings, að reisa í verki viljans merki.