- Nám og Námskeið
- Alþjóðlega vottað Markþjálfanám
- Þjálfun og námskeið fyrir fyrirtæki
- Greiningar og Upplýsingar
- Þetta erum við
- Vefverslun
Karfan er tóm
Fórnarlambið er ekki mikið fyrir hrós. Það er Akkilesarhæll þess eða kryptonít, svo notuð sé nútímalegri líking. Besta leiðin til að draga úr áhrifamætti fórnarlambsins er að hrósa þér fyrir það sem þú gerir og sérstaklega fyrir það sem þú gerir vel. Klappaðu þér á öxlina fyrir öll þau verkefni sem þú leysir af hendi.
Ég hef tekið eftir því að margir þeirra sem sækja markþjálfun eru harðir og ósérhlífnir í eigin garð. Því miður fylgir því oft að þeir leggja af stað í upphafi dags með yfirhlaðinn verkefnalista sem blasir við að þeir munu aldrei ná að klára. Innri samskipti þeirra í lok dags eru dapurleg. Í stað þess að hrósa sér fyrir það sem þeir luku við, sem oft og tíðum var mun meira en eðlilegt þykir, starblína þeir á það sem ekki tókst að klára. Þetta er dæmi um afleita og illa ígrundaða væntingastjórnun sem mun ekki vinna með þér á nokkurn hátt.
Til að upplifa innri hamingju og vellíðan þurfum við að hafa fimm sinnum fleiri jákvæðar hugsanir en neikvæðar. Sálfræðingurinn John Gottman sýndi til dæmis fram á að til þess að viðhalda hamingjusömu hjónabandi þarf fimm hrós til að jafna út eitt tuð (jákvæðni-/neikvæðnihlutfall 5:1). Stjórnendur mættu hafa þetta í huga gagnvart starfsfólki sínu og foreldrar gagnvart börnum.
Hið sama gildir um innri samskipti – hvernig þú talar við þig. Hvert er hlutfall jákvæðra og neikvæðra samræðna sem þú átt við sjálfa(n) þig? Það segir sig sjálft að þegar þú gleymir að hrósa þér fyrir það sem þú gerir vel og gagnrýnir þig fyrir allt sem aflaga fer þá ertu ekki að sýna þér sanngirni.
Við lifum á tímum stöðugs áreitis neikvæðra upplýsinga og frétta. Til að sogast ekki inn í svarthol neikvæðni, nöldurs og niðurbrjótandi áreitis verðum við sjálf að snúast til varnar með meðvitaðri ákvörðun um að vera þakklát og jákvæð. Það er á okkar valdi en ekki annarra að leggja merkingu í það sem við gerum og það sem er í gangi í kringum okkur.
Frábær leið til að auka meðvitund okkar um það góða í lífinu er að nota tannburstaaðferðina. Hún gengur út á að nýta tímann þegar við burstum tennurnar í að minna okkur á allt sem við gerðum vel þann daginn og hvað við höfum margt til að vera þakklát fyrir, það er yfirleitt miklu meira og fleira en við veitum athygli.
Þegar við gefum okkur þessar tvær mínútur áður en við förum út í daginn og tvær mínútur í lok dags til að þakka fyrir það góða sem við gerðum þann daginn og það góða sem við höfum hefur það keðjuverkandi áhrif á það hvernig okkur líður og hvernig við upplifum heiminn í kringum okkur.
Hrósaðu þér oftar og meira – þú átt það skilið!