- Nám og Námskeið
- Alþjóðlega vottað Markþjálfanám
- Þjálfun og námskeið fyrir fyrirtæki
- Greiningar og Upplýsingar
- Þetta erum við
- Vefverslun
Karfan er tóm
Af reynslu minni sem markþjálfi hef ég lært að það eru í alvörunni nánast engin takmörk fyrir því hvers við erum megnug, hvað við getum gert magnaða hluti þegar við náum að reka fleyg á milli þess sem við teljum okkur trú um að við getum og þess sem við getum í raun.
Of margir sem til mín hafa leitað hafa haft með sér troðna tösku efasemda um eingin ágæti og verðleika. Þegar betur er að gáð eru það í flestum tilvikum einhverjir aðrir sem hafa pakkað niður í þá tösku. Við göngumst allt of oft við því sem aðrir segja um okkur og því sem öðrum finnst. Við gerum það án þess velta því fyrir okkur eða leiða hugann að því hvert þessir sömu aðilar hafa sótt rök sín og skoðanir. Þegar við gerum þetta erum við að byggja upp annarra manna traust sem er andstæðan við sjálfstraust. Þá erum við að leggja í hendur annarra hvernig okkur líður. Það meikar engan sens!
Í uppvextinum erum við tiltölulega berskjölduð fyrir skoðunum og viðhorfum annara, sérstaklega þeirra sem við treystum og lítum upp til. Við meðtökum það sem heilagan sannleika og meitlaðar staðreyndir án þess að getum gert okkur nokkra grein fyrir því hversu letjandi og takmarkandi áhrif það mun hafa á þá sýn sem við erum að öðlast á framtíðina og stærð þeirra drauma sem munum leyfa okkur að bera í brjósti.
Á fullorðinsaldri mætti ætla að bæði vit og þroski myndu skola þessi viðhorfum út. En það er ekki svo einfalt því þegar við höfum samofið skoðanir annara í eigin sjálfsmynd hafa þær einnig tapað tengslum við uppruna sinn.
Ef þú vilt eitthvað annað og mögulega betra en það sem þú hefur þarftu að standa upp og taka ábyrgð. Það gerir það enginn og það á enginn að gera það fyrir þig. Það á ekki að vera í verkahring annara að taka ábyrgð á okkur sjálfum, hvorki vina, fjölskyldu né maka.
Djúp hlustun á líka við þegar kemur að okkur sjálfum. Rödd hjartans heyrist oft ekki vegna hávaðans í kollinum á okkur þar sem bæði raddir fortíðar og raddir annara keppast um athygli þína og byrgja þér sýn. Hvað myndi breytast þegar þú nærð að þagga niður í þeim röddum, rífa úr þeim raddböndin, og byrja að veita því meiri athygli hvað hjartað hefur að segja, hvað þér sjálfum eða sjálfri finnst, hver þú ert, hvað þú vilt og hvert þú vilt fara?
Hugurinn er magnað fyrirbæri. Hann fer bæði til fortíðar og framtíðar til að sækja alskyns óþverra eins og skömm, eftirsjá, vanmáttarkennd og áhyggjur. En þegar við tökum meðvitaða ákvörðun um að hleypa honum ekki inn í hyldýpi þess sem var eða verður, þá fyrst skapast rými til að skoða það sem í raun og veru er. Þegar við gerum það í þeim tilgangi að skapa af kærleika það sem við viljum að verði - þá erum við skipstjórar í eigin lífi.
Núna, nákvæmlega hér og nú, er alltaf besti tíminn og í raun eini tíminn sem við höfum til ráðstöfunar. Seinna verður alltaf seinna og það sem á að gerast seinna gerist aldrei!
Frestunarárátta er kryptónít sjálfstraustsins og étur drauma í morgunmat!
@Ingvar Jonsson - PCC-markþjálfi Profectus